Ferill 465. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 748  —  465. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2015.


1. Inngangur.
    Á vettvangi Evrópuráðsþingsins á árinu 2015 bar hæst neyðarástandið í Úkraínu, hlutdeild Rússa í átökunum og stöðu landsdeildar þeirra hjá Evrópuráðsþinginu, flóttamannavandann á Miðjarðarhafi og baráttuna gegn hryðjuverkum.
    Á árinu ályktaði Evrópuráðsþingið m.a. um slæma stöðu flóttamanna og vegalauss fólks á átakasvæðum í suðausturhluta Úkraínu og afdrif týndra einstaklinga vegna átakanna í héruðunum Donetsk og Luhansk í Úkraínu og á Krímskaga. Á fundi sínum í apríl 2014 ákvað þingið að svipta rússnesku landsdeildina atkvæðisrétti ásamt rétti til að sitja í helstu stjórnum þingsins og taka þátt í kosningaeftirliti vegna hlutdeildar Rússlands í átökunum. Réttindi landsdeildarinnar voru tvívegis endurmetin árið 2015. Á janúarfundi þingsins var ákveðið að fullgilda kjörbréf landsdeildar Rússa en að réttindi hennar yrðu áfram jafn takmörkuð og áður. Ef Rússar sýndu viðleitni til að draga innlimun Krímskaga til baka, rannsaka mannréttindabrot, leysa upp herafla sinn í Úkraínu og stilla sig um að beita sjálfstæða fjölmiðla þrýstingi, hugðist þingið skoða að veita Rússum full réttindi aftur. Á júnífundi þingsins var samþykkt að ógilda ekki kjörbréf landsdeildar Rússlands að sinni en að réttindi hennar yrðu áfram jafn takmörkuð og áður. Í ályktun um málið segir að rússneska þingið og landsdeild þess hjá Evrópuráðsþinginu verði nú að hefja viðræður við Evrópuráðsþingið á ný, án skilyrða, um skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu, þar á meðal hvað varðar stefnu Rússa gagnvart nágrannaríkjum. Í ályktuninni er undirstrikað að samþykki slíkra viðræðna sé grunnregla aðildar að Evrópuráðsþinginu sem öll aðildarríki verði að fylgja. Sem fyrsta skref eigi rússneska landsdeildin að hefja á ný þátttöku í vinnu eftirlitsnefndar þingsins og heimila framsögumönnum nefndarinnar gagnvart Rússlandi að sækja landið heim í tengslum við störf þeirra. Ráðgert er að málið verði á dagskrá janúarfundar þingsins 25.–29. janúar 2016.
    Á aprílfundi sínum lýsti Evrópuráðsþingið yfir miklum áhyggjum af áframhaldandi harmleik flóttamanna og óreglulegs farandfólks á Miðjarðarhafi með gífurlegri aukningu dauðsfalla vikurnar á undan. Í ályktun um málið kallaði þingið eftir að ríki Evrópusambandsins tækju á málinu á alhliða hátt með því að styrkja leit og björgun á svæðinu, samþykkja skilvirkar sameiginlegar aðgerðir til að berjast gegn mansali og smyglurum, endurskoða Dyflinnarreglugerðina með það að leiðarljósi að deila ábyrgð og kostnaði betur með kvótum fyrir móttöku flóttafólks fyrir hvert ríki, byggt á íbúafjölda þess og landsframleiðslu, fjölga löglegum leiðum til Evrópu fyrir flóttafólk, auka mannúðaraðstoð og tryggja hæli fyrir fólk sem þarfnast alþjóðlegrar verndar. Á októberfundi þingsins var annars vegar rætt og ályktað um þörfina fyrir nýtt kerfi fyrir móttöku hælisleitenda sem koma til álfunnar og hins vegar þær áskoranir sem þau ríki sem flóttamenn hafa viðkomu í standa frammi fyrir. Í ályktun um síðarnefnda málefnið óskað þingið eftir því að aðildarríki Evrópuráðsins sendu hælisleitendur ekki til baka til Líbanons, Jórdaníu, Tyrklands, Grikklands, Makedóníu, Serbíu og Ungverjalands eða annarra ríkja sem bera mestan þunga af flóttamannastraumnum og/eða þar sem öryggi hælisleitenda er ekki tryggt af hálfu móttökuríkjanna.
    Í ályktun um hryðjuverkaárásirnar í París 7.–9. janúar 2015 kallaði Evrópuráðsþingið eftir því að aðildarríki stilltu sig um að stunda óskipulagt fjöldaeftirlit með borgurum, veittu löggæslustofnunum og öryggis- og leyniþjónustum nægilegt fjármagn og þjálfun til að takast á við vaxandi ógn af hryðjuverkum og tryggðu að leyniþjónustur Evrópuríkja ykju samstarf sín á milli og við ríki í Mið-Austurlöndum og í arabaheiminum. Loks kallaði þingið eftir því að aðildarríki og nágrannaríki þeirra undirrituðu og fullgiltu sáttmála Evrópuráðsins um forvarnir gegn hryðjuverkum og fagnaði sérstaklega viðauka við sáttmálann sem sneri að hryðjuverkamönnum sem snúa aftur til síns heima.
    Í upphafi árs var Anne Brasseur frá Lúxemborg endurkjörin forseti Evrópuráðsþingsins til eins ár en hún var ein í framboði. Þá var Wojciech Sawicki endurkjörinn framkvæmdastjóri Evrópuráðsþingsins til 5 ára, með 140 atkvæðum gegn 108 atkvæðum mótframbjóðandans, Svetislavu Bulajic, fyrrverandi þingkonu frá Serbíu.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Í þeim tilgangi beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála.
    Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og félagsmálasáttmála Evrópu.
    Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa landfræðilega heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu.
    Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 318 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Frá árinu 2011 starfar þingið í átta fastanefndum en einnig starfa á þinginu fimm flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Stjórnarnefndin fundar þrisvar á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins saman í hvert sinn sem Evrópuráðsþingið kemur saman.
    Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál.
    Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
    –        eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
    –        hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir í þeim tilvikum sem misbrestur er þar á, og
    –        vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Þingið getur beint tilmælum og álitum til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að gerð fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá árunum 1997 og 2002. Þar eru stjórnvöld hvött til þess að grípa til samstilltra aðgerða til að stemma stigu við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Á árinu 2011 lauk einnig vinnu við gerð samnings sem tekur á ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi en gerð hans er einnig í samræmi við ályktanir Evrópuráðsþingsins.
    Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn frá öllum ríkjum Evrópu, að Hvíta-Rússlandi undanskildu, starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög og stutt við þá öru lýðræðisþróun sem hefur orðið í Evrópu eftir lok kalda stríðsins. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi og ekki síður möguleika fyrir íslenska hagsmuni á Evrópuráðsþinginu.

3. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Árið 2015 voru aðalmenn þau Karl Garðarsson, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Unnur Brá Konráðsdóttir, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Ögmundur Jónasson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Oddný G. Harðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Skipan Íslandsdeildar í nefndir Evrópuráðsþingsins var sem hér segir:
     *      Sameiginleg nefnd Evrópuráðsþingsins og ráðherraráðsins: Karl Garðarsson.
     *      Stjórnarnefnd: Karl Garðarsson.
     *      Stjórnmála- og lýðræðisnefnd: Karl Garðarsson.
     *      Laga- og mannréttindanefnd: Unnur Brá Konráðsdóttir.
     *      Nefnd um félagsmál, heilbrigðismál og sjálfbæra þróun: Ögmundur Jónasson.
     *      Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Ögmundur Jónasson.
     *      Nefnd um menningar- og menntamál, fjölmiðla og vísindi: Karl Garðarsson.
     *      Jafnréttisnefnd: Unnur Brá Konráðsdóttir.
     *      Eftirlitsnefnd: Karl Garðarsson og Ögmundur Jónasson.
     *      Reglunefnd: Ögmundur Jónasson.
    Ögmundur Jónasson er jafnframt tengiliður Alþingis við baráttuherferðir Evrópuráðsþingsins um afnám kynferðisofbeldis gegn börnum annars vegar og gegn ofbeldi gegn konum hins vegar. Ritari Íslandsdeildar var Vilborg Ása Guðjónsdóttir.
    Íslandsdeild hélt tvo fundi á árinu til að vinna að tilnefningu þriggja einstaklinga til að starfa fyrir hönd Íslands í nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefndin). Starfið var auglýst á vef Alþingis í október 2014 og lágu tilnefningar Íslandsdeildar fyrir í febrúar 2015. Ráðherranefnd Evrópuráðsins valdi í kjölfarið Matthías Halldórsson lækni sem næsta fulltrúa Íslands í nefndinni að undangenginni umsögn framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins, sem fékk ráðgjöf frá undirnefnd þingsins um mannréttindamál. Matthías hóf störf 19. desember 2015. Í aðdraganda janúarþings Evrópuráðsþingsins fundaði Íslandsdeild með staðgengli sendiherra Rússlands á Íslandi að beiðni sendiráðsins. Á dagskrá var staða rússnesku landsdeildarinnar hjá Evrópuráðsþinginu í aðdraganda ákvörðunar þingsins um hvort Rússar fengju aftur atkvæðarétt, sem og rétt til þátttöku í stjórnum þingsins og kosningaeftirliti, eftir að hafa verið sviptir þeim réttindum í apríl 2014. Karl Garðarsson formaður og Ögmundur Jónasson sóttu fundinn, ásamt ritara Íslandsdeildar. Íslandsdeildin fundaði með framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, Thorbjørn Jagland, í Reykjavík 8. júní 2015. Fundinn sóttu Karl Garðarsson formaður og Ögmundur Jónasson, auk Birgis Ármannssonar, formanns utanríkismálanefndar, og ritara Íslandsdeildar. Á dagskrá fundar voru málefni Úkraínu, staða Rússa í Evrópuráðinu, ný viðbótarbókun við sáttmála Evrópuráðsins um forvarnir gegn hryðjuverkum og staða flóttamanna við Miðjarðarhaf. Jagland hvatti íslensk stjórnvöld til þess að opna aftur sendiskrifstofu í Strassborg þar sem Evrópuráðið hefur aðsetur, en Ísland er eina aðildarríki stofnunarinnar sem ekki hefur aðsetur í borginni. Einnig var rætt um vinnu Íslands að endurskoðun stjórnarskrárinnar og drög að siðareglum alþingismanna sem byggja á fyrirmynd Evrópuráðsins. Varaformaður Íslandsdeildar, Unnur Brá Konráðsdóttir, fundaði með forseta Evrópuráðsþingsins, Anne Brasseur, 28. október í Reykjavík, ásamt Óttari Proppé og Líneik Önnu Sævarsdóttur sem ásamt Unni Brá sitja í þverpólitískri þingmannanefnd Alþingis um málefni útlendinga. Til umræðu var fyrst og fremst straumur flóttamanna til Evrópu og viðbrögð Íslands við stöðunni. Þingmenn upplýstu Anne Brasseur um vinnu þverpólitísku þingmannanefndarinnar að endurskoðun útlendingalaga á Íslandi. Þeir sögðu m.a. frá víðtæku samstarfi nefndarinnar við alla hagsmunaaðila og áherslu á að lögin verði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og þarfir íslensks samfélags, ábyrgð mismunandi stofnana og ráðuneyta verði skýrari, biðtími styttri og fræðsla og umræða um málaflokkinn markvisst aukin. Þá ræddu þau áætlun ríkisstjórnarinnar í málaflokknum, þar á meðal fjárstuðning við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök sem vinna með flóttafólki erlendis, móttöku flóttafólks og hælisleitenda á Íslandi og aðgerðir sem geta hraðað afgreiðslu hælisumsókna. Anne Brasseur lýsti yfir ánægju með hvernig þingmannanefndin ynni að málaflokknum, þvert á flokka og í sem mestri sátt. Í mörgum löndum nýttu stjórnmálaflokkar sér krefjandi aðstæður til að ýta undir hatursorðræðu og fordóma í því skyni að auka fylgi sitt. Hatursorðræða væri ógn við lýðræðið, ekki flóttamenn. Vinnulag íslenska þingsins gæti verið fyrirmynd í þessu sambandi.

4. Fundir Evrópuráðsþingsins 2015.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins eru haldnir í Evrópuhöllinni í Strassborg fjórum sinnum á ári, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Auk þess koma framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiða mál sem æðsta vald þingsins.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 26.–30. janúar 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Karl Garðarsson, formaður, Ögmundur Jónasson og Brynjar Níelsson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Helstu mál á dagskrá voru fullgilding kjörbréfa rússnesku landsdeildarinnar, staða mannúðarmála í Úkraínu og vernd fjölmiðlafrelsis í Evrópu. Þá fóru fram utandagskrárumræður um hryðjuverkaárásirnar í París 7.–9. janúar 2015.
    Að venju hófst fyrsti þingfundur ársins á kjöri forseta Evrópuráðsþingsins. Anne Brasseur frá Lúxemborg var endurkjörin í embættið en hún var ein í framboði. Í opnunarræðu sinni ræddi Brasseur m.a. ástandið í Úkraínu og hættuna á því að landfræðipólitík yrði yfirsterkari gildum lýðræðis og réttarríkis og jafnvel mannslífa. Evrópa þyrfti á Rússlandi að halda sem áreiðanlegum samstarfsaðila og ábyrgs stórveldis en Rússland yrði að virða alþjóðlegar skuldbindingar til að það gæti orðið friður, öryggi og stöðugleiki í Evrópu.
    Utanríkisráðherra Belgíu, Didier Reynders, ávarpaði einnig þingið og sagði m.a. frá áhersluatriðum belgísku formennskunnar í ráðherranefnd Evrópuráðsins. Hann ræddi enn fremur um viðleitni Evrópuráðsins til að berjast gegn öfgahyggju og hryðjuverkum. Nefnd sérfræðinga hefði nýverið verið stofnuð til að uppfæra sáttmála ráðsins um forvarnir gegn hryðjuverkum (e. Convention on the Prevention of Terrorism) með það að markmiði að hann feli í sér lagalega bindandi aðgerðir til að takast á við þá ógn sem felst í hryðjuverkamönnum sem snúa aftur til síns heima í Evrópu frá stríðshrjáðum svæðum. Í ræðu sinni ræddi framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Thorbjørn Jagland, um ástandið í Úkraínu og sagði frá starfi ráðsins við uppbyggingu í Úkraínu, endurbætur á dómskerfinu og gegn spillingu í Rússlandi.
    Á fundi sínum í apríl 2014 ákvað þingið að svipta rússnesku landsdeildina atkvæðisrétti ásamt rétti til að sitja í helstu stjórnum þingsins og taka þátt í kosningaeftirliti. Þingið áskildi sér einnig rétt til að ógilda kjörbréf rússnesku landsdeildarinnar ef Rússland drægi ekki úr stigmögnun ástandsins og tæki til baka innlimun Krímskaga fyrir janúarfund þingsins 2015. Á fundinum í janúar 2015 ákvað þingið að fullgilda kjörbréf landsdeildar Rússa en að réttindi hennar yrðu áfram jafn takmörkuð og áður til næsta þingfundar 20.–25. apríl 2015. Ef Rússar sýndu viðleitni til að draga innlimun Krímskaga til baka, rannsökuðu mannréttindabrot, leystu upp herafla sinn í Úkraínu og stilltu sig um að beita sjálfstæða fjölmiðla þrýstingi, hugðist þingið skoða að gefa Rússum full réttindi aftur. Þingið áskildi sér jafnframt rétt til að ógilda kjörbréf rússnesku landsdeildarinnar á fundi sínum 22.–26. júní 2015 ef engra framfara yrði vart hvað varðar áðurnefnd atriði. Loks lagði þingið til að stofnaður yrði sérstakur vinnuhópur þingforseta rússnesku dúmunnar og úkraínska þingsins til stuðnings framkvæmdar á tillögum Evrópuráðsþingsins.
    Í ályktun um slæma stöðu flóttamanna og vegalauss fólks á átakasvæðum í suðausturhluta Úkraínu kallar þingið eftir að aðilar deilunnar virði með öllu vopnahléið sem samþykkt var í Minsk 5. september 2014, hlíti alþjóðlegum mannréttinda- og mannúðarlögum, leysi alla stríðsfanga úr haldi, tryggi aðgengi mannúðarsamtaka og rannsakenda að átakasvæðum og útvegi stjórnvöldum í Úkraínu og alþjóðlegum rannsakendum öll gögn sem gætu aðstoðað við rannsóknir á mannréttindabrotum á landsvæði Úkraínu. Í ályktuninni er því jafnframt beint til úkraínskra stjórnvalda að hlíta að fullu alþjóðlegum reglum um vegalaust fólk og rannsaka og þar sem við á lögsækja aðila vegna meintra mannréttindabrota gegn vegalausu fólki. Því er síðan beint til rússneskra stjórnvalda að stilla sig um að valda óstöðugleika í Úkraínu og styðja hernaðarlega við aðskilnaðarsinna og þau hvött til að nýta áhrif sín frekar til að fá aðskilnaðarsinna til að virða að fullu og innleiða ákvæði Minsk-vopnahlésins. Þá er kallað eftir að rússnesk stjórnvöld haldi áfram að bjóða úkraínskum flóttamönnum vernd og einfaldi umsóknarferli hælisleitenda. Þingið kallar einnig eftir að alþjóðasamfélagið haldi áfram að styðja við vegalaust fólk og flóttamenn í Úkraínu, sem og úkraínsk stjórnvöld í viðleitni þeirra til að þróa langtímaáætlanir fyrir vegalaust fólk.
    Í ályktun um fjölmiðlafrelsi lýsti þingið yfir miklum áhyggjum af sífellt versnandi stöðu þegar kæmi að öryggi blaðamanna og fjölmiðlafrelsi í Evrópu og hvatti aðildarríki til að auka starf sitt á þessu sviði. Meintar árásir á fjölmiðla í átökunum í Austur-Úkraínu voru fordæmdar og kallað eftir því að stjórnvöld í Úkraínu og Rússlandi rannsökuðu brotin og lögsæktu gerendur. Í tilmælum til ráðherranefndar Evrópuráðsins lagði Evrópuráðsþingið til að nefndin kæmi á framfæri aðgerðaáætlun Sameinuðu þjóðanna um öryggi blaðamanna, yki viðleitni Evrópuráðsins þegar kæmi að öryggi blaðamanna og þróaði fræðsluáætlanir fyrir lögregluyfirvöld í aðildarríkjum um vernd blaðamanna og fjölmiðlafrelsi. Þá er lögð áhersla á að nefndin fylgist vel með því að aðildarríki framkvæmi hratt og örugglega dóma Mannréttindadómstóls Evrópu sem varða alvarleg brot á fjölmiðlafrelsi og auki samstarf og stuðning við aðildarríki á þessu sviði, þar á meðal við þjóðþing aðildarríkja. Karl Garðarsson tók þátt í umræðum um málið fyrir hönd síns flokkahóps. Hann sagði fjölmiðlafrelsi í Evrópu takmarkaðra nú en oft áður og ríkisstjórnir, eigendur fjölmiðla og aðra hagsmunaaðila ráðast á fjölmiðla í tilraun til að hafa áhrif á almenningsálitið. Fjárhagslegur stöðugleiki ríkisfjölmiðla væri lítill í sumum aðildarríkjum sem ógnaði sjálfstæði þeirra og drægi úr líkum á opinni og óhlutdrægri umfjöllun. Þá væri skortur á gagnsæi þegar kæmi að eignarhaldi fjölmiðla sem drægi úr líkunum á fjölhyggju í fjölmiðlum, og þar með í samfélaginu og í stjórnmálunum. Blaðamönnum í Evrópu væri ógnað, á þá væri ráðist, þeir fangelsaðir, pyntaðir og myrtir. Aðildarríki Evrópuráðsins yrðu að gera allt sem í valdi þeirra stæði til að koma í veg fyrir slík grimmdarverk. Loks sagði Karl frá skýrslu samtakanna Blaðamenn án landamæra um fjölmiðlafrelsi í heiminum árið 2014. Í skýrslunni er skýrt frá því hvernig deilur og átök hafa neikvæð áhrif á fjölmiðlafrelsi, bæði á átakasvæðum og eins með hertum þjóðaröryggisreglum sem skerða oft rétt almennings til upplýsinga.
    Í ályktun um hryðjuverkaárásirnar í París 7.–9. janúar 2015 kallaði þingið eftir að aðildarríki stilltu sig um að stunda óskipulagt fjöldaeftirlit með borgurum, veittu löggæslustofnunum og öryggis- og leyniþjónustum nægilegt fjármagn og þjálfun til að takast á við vaxandi ógn af hryðjuverkum og tryggðu að leyniþjónustur Evrópuríkja ykju samstarf sín á milli og við ríki í Mið-Austurlöndum og í arabaheiminum. Loks kallaði þingið eftir að aðildarríki og nágrannaríki þeirra undirrituðu og fullgiltu sáttmála Evrópuráðsins um forvarnir gegn hryðjuverkum og fagnaði sérstaklega viðauka við sáttmálann sem sneri að hryðjuverkamönnum sem snúa aftur til síns heima. Ögmundur Jónasson tók þátt í umræðum um málið fyrir hönd síns flokkahóps. Hann sagði hryðjuverkaárásirnar í París minna okkur öll á að baráttan fyrir frelsinu tæki aldrei enda og sagði vernd fjölmiðlafrelsis vera vernd frjáls og lýðræðislegs samfélags. Hann varaði þó jafnframt við því að samheldni um frelsi ummyndaðist í valdbeitingu. Fjöldasamkomur í kjölfar árásanna hafi verið til stuðnings frjálsræði, tjáningarfrelsi og frelsi almennt og ætti ekki að túlka sem eins konar styrkleikasýningu. Þær sýndu ef til vill styrk en það væri fyrst og fremst siðferðilegur styrkur, ekki styrkur valdsins. Hann vísaði í orð Olemic Thommessen, forseta norska stórþingsins, sem sagði að í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Ósló og Útey hefðu Norðmenn brugðist við með því að senda út skilaboð um stuðning við opið lýðræðisþjóðfélag fremur en að áherslan væri á refsivendinum.
    Af öðru sem var samþykkt á þinginu má nefna ályktun um framkvæmd samkomulags milli Evrópuráðsins og Evrópusambandsins, hvernig Svartfjallaland hefur staðið við aðildarskuldbindingar sínar, réttinn til að semja sameiginlega um laun, þar á meðal að fara í verkfall, umburðarleysi og mismunun í Evrópu með sérstakri áherslu á kristna menn, flokkaflakk þingmanna eftir að þeir hafa verið kjörnir á þing og áhrif þess á samsetningar landsdeilda, vitnavernd sem ómissandi tæki í baráttunni gegn skipulögðum glæpum og hryðjuverkum í Evrópu og jafnrétti fatlaðs fólks.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 20.–24. apríl 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Karl Garðarsson, formaður, Unnur Brá Konráðsdóttir, varaformaður, og Ögmundur Jónasson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Helstu mál á dagskrá voru fjöldaeftirlit með almenningi (e. mass surveillance), afleiðingar af aðgerðum hryðjuverkahóps sem kennir sig við íslamskt ríki og notkun dróna með tilliti til mannréttinda og alþjóðalaga. Þá fóru fram utandagskrárumræður um ástand stjórn- og öryggismála í Úkraínu, harmleik flóttamanna á Miðjarðarhafi og viðbótarbókun við sáttmála Evrópuráðsins um forvarnir gegn hryðjuverkum.
    Í ályktun um fjöldaeftirlit með almenningi lýsti þingið yfir miklum áhyggjum af því fjöldaeftirliti Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna og samstarfsaðila þeirra í nokkrum aðildarríkjum Evrópuráðsins sem Edward Snowden, fyrrverandi starfsmaður Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna, upplýsti um í júní 2013. Uppljóstrunin leiddi til mikillar umræðu um þann skort sem er á viðunandi löggjöf og tæknilegri vernd í þessu sambandi. Í ályktuninni segir að eftirlitskerfin sem Snowden ljóstraði upp um stofni grundvallarmannréttindum í hættu, þar á meðal réttinum til einkalífs og tjáningar- og upplýsingafrelsis. Þingið hvatti aðildar- og áheyrnarríki Evrópuráðsins til að tryggja að löggjöf þeirra leyfði aðeins söfnun og greiningu persónuupplýsinga með leyfi frá viðkomandi persónu eða að dómsúrskurður liggi fyrir byggður á rökstuddum grun um að viðkomandi hafi tekið þátt í glæpsamlegu athæfi. Þá eru aðildarríki hvött til að tryggja að leyniþjónustur þeirra séu undir tryggu eftirliti dómskerfis og/eða þjóðþings og að uppljóstrarar sem upplýsi um ólöglegar eftirlitsaðgerðir séu verndaðir. Unnur Brá Konráðsdóttir og Ögmundur Jónasson tóku þátt í umræðum um málið fyrir hönd sinna flokkahópa. Unnur sagði óhjákvæmilegt að í umræðu um fjöldaeftirlit vegist á friðhelgi einkalífsins og sjónarmið um hvaða heimildir yfirvöld eigi að hafa til að skerða sömu friðhelgi til að tryggja öryggi heildarinnar. Þörf væri á skilvirku og markvissu eftirliti með grunuðum hryðjuverkamönnum og öðrum skipulögðum glæpahópum en ekki liti út fyrir að fjöldaeftirlit eins og viðhaft væri í Bandaríkjunum hefði átt þátt í að koma í veg fyrir hryðjuverk. Á meðan aðstæður gætu vissulega kallað á eftirlit af ýmsu tagi þá samræmdist fjöldaeftirlit með lífi allra borgara ekki almennum hugmyndum um réttinn til friðhelgi einkalífsins. Ögmundur sagði tæknilega möguleika til fjöldaeftirlits vera að þróast hratt en ógnvekjandi væri að sama ætti við um vilja valdhafa til að nýta sér þessa möguleika. Það ætti t.d. við um tillögur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að safna og greina upplýsingar um allar flugferðir fólks inn og út úr ríkjum sambandsins. Þróun stórtæks leynilegs eftirlitsiðnaðar sem væri ekki undir neinu lýðræðislegu eftirliti væri afar varhugaverð og full ástæða fyrir Evrópuráðsþingið að senda sterk skilaboð á móti þess konar þróun sem stefndi grundvallarmannréttindum í hættu.
    Í ályktun um afleiðingar af aðgerðum hryðjuverkahóps sem kennir sig við íslamskt ríki lýsti þingið yfir miklum áhyggjum af sífellt versnandi ástandi í Sýrlandi en á árinu 2014 létu 76 þúsund manns lífið í tengslum við átök uppreisnarhópa og stjórnarhersins þar í landi og ekki er vitað um afdrif þúsunda manna. Þá hafa 11,5 milljónir manna flúið land en þar af eru 4 milljónir flóttamenn og um 7,5 milljónir vegalaust fólk innan eigin lands. Átökin í Sýrlandi hafa leitt til þess að Sýrlendingar eru nú stærsti hópur flóttamanna sem Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna aðstoðar. Þingið hrósaði sérstaklega Tyrklandi, Líbanon, Írak og Egyptalandi fyrir að hafa tekið á móti um 92% af flóttamönnunum. Þingið óskaði eftir að aðildar- og áheyrnarríki Evrópuráðsins ykju fjárhagslegan stuðning sinn við stofnanir sem starfa á sviði mannúðarmála, veittu sýrlenskum flóttamönnum tímabundna vernd og vegabréfsáritanir til að þeir gætu stundað nám eða vinnu, gripu til aðgerða gegn smyglurum á Miðjarðarhafssvæðinu, lögsæktu fólk sem hefði framið stríðsglæpi og sæju til þess að konur ættu aðild að friðarferlinu í Sýrlandi.
    Þingið komst að þeirri niðurstöðu að notkun dróna fyrir markviss dráp veki upp áleitnar spurningar sem varða mannréttindi og alþjóðalög. Í ályktun um málið kallar þingið eftir að aðildar- og áheyrnarríki Evrópuráðsins virði þau tímamörk sem alþjóðalög setja á markviss dráp, sérstaklega þegar kemur að notkun dróna, setji skýrar opinberar verklagsreglur fyrir veitingu heimildar til árása, sem verði að vera undir ströngu eftirliti hæstaréttar viðkomandi lands, rannsaki að fullu öll dauðsföll af völdum vopnaðra dróna og geri niðurstöður opinberar, sæki til saka þá sem eru ábyrgir fyrir hvers konar ódáðum og bæti fórnarlömbum eða fjölskyldum þeirra skaðann. Karl Garðarsson tók þátt í umræðum um málið fyrir hönd síns flokkahóps. Hann benti á að þótt notkun vopnaðra dróna væri sem slík hvorki ólögleg né fæli í sér mannréttindavandamál þá vekti aukin notkun þeirra með tilheyrandi mannfalli meðal almennra borgara upp áleitnar spurningar varðandi mannréttindi og önnur alþjóðalög sem yrði að taka á. Búast mætti við að drónar yrðu sífellt tæknilegri, aðgengilegri og ódýrari. Á sama tíma væri lítið gagnsæi í tengslum við drónaárásir. Það væri því mikil þörf á þeim skýru reglum, verkferlum, eftirliti og rannsóknum sem ályktunin kallaði eftir.
    Ögmundur Jónasson tók þátt í utandagskrárumræðum um ástand stjórn- og öryggismála í Úkraínu. Hann lýsti yfir áhyggjum af þróun átakanna í austurhluta landsins og einnig yfir tilraunum stjórnvalda til að banna hugmyndir, hugmyndafræði og tákn kommúnistaflokks landsins. Hann viðurkenndi mikilvægi sögunnar í því samhengi en sagði glæpi einnig hafa verið framda af fulltrúum annarra hugmyndafræða og trúarbragða. Þó dytti engum í hug að banna kristni eða krossinn vegna aðgerða spænska rannsóknarréttarins á miðöldum. Hann lýsti einnig yfir áhyggjum af þróun mála í Evrópuráðinu og Evrópuráðsþinginu og sagði stofnanirnar á stundum farnar að minna á NATO eða Evrópusambandið. Evrópuráðið væri stofnun fólksins, oft gegn ríkjum. Hún væri þannig stofnun Pussy Riot og samkynhneigðra gegn rússneska ríkinu. Útilokun Rússa frá stofnunum Evrópuráðsins mundi á endanum koma í veg fyrir að milljónir Rússa gætu flutt mál sín fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.
    Þingið lýsti yfir miklum áhyggjum af áframhaldandi harmleik flóttamanna og óreglulegs farandfólks á Miðjarðarhafi með gífurlegri aukningu dauðsfalla vikurnar á undan. Taka yrði á málinu án tafar. Í ályktun um málið kallaði þingið eftir að ríki Evrópusambandsins tækju á málinu á alhliða hátt með því að styrkja leit og björgun á svæðinu, samþykkja skilvirkar sameiginlegar aðgerðir til að berjast gegn mansali og smyglurum, endurskoða Dyflinnarreglugerðina með það að leiðarljósi að deila ábyrgð og kostnaði betur með kvótum fyrir hvert ríki byggt á íbúafjölda þess og landsframleiðslu, fjölga löglegum leiðum til farandflutnings til Evrópu fyrir flóttafólk, auka mannúðaraðstoð og tryggja aðgengi að hæli fyrir fólk sem þarfnast alþjóðlegrar verndar. Þá fagnar þingið nýrri aðgerðaráætlun Evrópusambandsins um flóttamannavandann frá 20. apríl 2015 sem slíkri en sagði á sama tíma að hún væri ófullnægjandi og að þingið gerði ráð fyrir alhliða áætlun um vandann í maí 2015.
    Ögmundur Jónasson tók einnig þátt í umræðum um viðbótarbókun við sáttmála Evrópuráðsins um forvarnir gegn hryðjuverkum fyrir hönd síns flokkahóps. Bókunin eykur heimildir ríkja til að gera saknæmar gjörðir fólks sem grunað er um að eiga hlut að hryðjuverkum. Ögmundur lagði áherslu á að jafnvægi yrði að ríkja á milli skyldu ríkja til að koma í veg fyrir hryðjuverk og til að verja mannréttindi og réttarríkið. Hann sagðist efast um að viðbótarbókunin væri nógu skýr lagalega, sumar málsgreinarnar væri hægt að túlka á ólíkan hátt. Þá væri snúið að skilgreina „hryðjuverk“. Þannig hefðu bresk stjórnvöld skilgreint Ísland sem hryðjuverkaríki í aðdraganda efnahagskrísunnar haustið 2008, við hlið al-Kaída og Norður-Kóreu.
    Af öðru sem var samþykkt á þinginu má nefna ályktun um fjárhagsáætlun og forgangsatriði Evrópuráðsins fyrir árin 2016 og 2017, útgjöld Evrópuráðsþingsins árin 2016 og 2017, mismunun gegn transfólki í Evrópu, félagsþjónustu í Evrópu, samræður við Mónakó eftir að formlegu eftirlitsferli er lokið (e. post-monitoring dialogue), jafnrétti og bann við mismunun í aðgengi að réttarkerfinu, umbætur á stjórnarháttum innan fótboltageirans og skilvirkni mannréttindasáttmála Evrópu.

Stjórnarnefndarfundur Evrópuráðsþingsins í Sarajevó 22. maí 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar sótti fundinn Karl Garðarsson, formaður, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, ritara Íslandsdeildar. Á dagskrá voru ákvæði um réttindi barna í stjórnarskrám aðildarríkja Evrópuráðsins, refsivæðing óreglulegra farandverkamanna (e. migrants), ógnir við menningararfleifð ríkja og úthlutun sæta í Evrópuráðsþinginu með tilliti til Tyrklands. Þá voru helstu áherslur formennsku Bosníu og Hersegóvínu í Evrópuráðinu kynntar, en hún hófst 19. maí 2015. Loks voru utandagskrárumræður um stjórnmálaástandið í Makedóníu.     Í upphafsávarpi sínu sagði Anne Brasseur, forseti Evrópuráðsþingsins, að formennska Bosníu og Hersegóvínu fæli í sér tækifæri jafnt sem áskoranir og ábyrgð fyrir landið. Evrópuráðsþingið styddi áherslur formennskuáætlunarinnar og hún sagðist vona að formennskan gæti falið í sér tækifæri fyrir Bosníu og Hersegóvínu til að gera nauðsynlegar endurbætur á stofnunum sínum.
    Utanríkisráðherra Bosníu, Igor Crnadak, ávarpaði næstur fundinn og kynnti áherslur undir formennsku landsins í Evrópuráðinu næstu sex mánuðina. Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum, nágrannastefna stofnunarinnar og starf hennar á sviði menningar voru þar efst á blaði, ásamt verkefnum um trúarlega vídd menningarsamskipta.     Í utandagskrárumræðu um stjórnmálaástandið í Makedóníu var lýst yfir þungum áhyggjum af þróun mála mánuðinn á undan en miklar deilur stóðu yfir milli stjórnarandstöðuafla og ríkisstjórnar landsins sem leitt höfðu til vopnaðra átaka. Í umræðum kom fram að helsta rót vandans væri mikil spilling í stjórnmálum landsins og hjá dómstólum, sem og skortur á óháðum fjölmiðlum. Deilan væri ekki á milli þjóðernishópa. Rannsaka þyrfti allar hliðar málsins og sækja þá sem ábyrgir væru til saka.
    Í ályktun um ákvæði um réttindi barna í stjórnarskrám aðildarríkja lýsti þingið yfir áhyggjum af því að aðildarríki ráðsins nýttu ekki alla mögulega stjórnskipu-, laga- og stjórnsýslulega möguleika til að vernda börn. Börnum stafaði ógn af nýjum hættum 21. aldar, t.d. í tengslum við upplýsinga- og samskiptatækni og niðurskurðaraðgerðir ríkja þegar kæmi að opinberri þjónustu í kjölfar efnahagskreppunnar. Þingið kallaði eftir að aðildarríki greindu og tryggðu framkvæmd ákvæða stjórnarskráa sinna með tilliti til alþjóðlegra staðla og veitti stjórnskipulegar tryggingar fyrir vernd og eflingu réttinda barna. Einnig að þau skrifuðu undir og virtu alþjóðleg tæki sem snúa að mannréttindum barna, þar á meðal nýja valkvæða bókun við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um verklag við miðlun upplýsinga (e. Optional Protocol of the Convention on the Rights of the Child on a Communcations Procedure), dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, viðbótarbókun við félagsmálasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um kerfi fyrir kærur hópa, og viðmiðanir Evrópuráðsins um barnvænt réttlæti (e. Council of Europe Guidelines on Child Friendly Justice). Karl Garðarsson tók til máls í umræðum um málið. Hann sagði frá samstarfi Alþingis, UNICEF á Íslandi, Barnaheilla og umboðsmanns barna um verkefni sem snýr að því að einn þingmaður hvers þingflokks er talsmaður barna á Alþingi. Með því að gerast talsmenn barna á Alþingi væri þingmönnum gefið tækifæri til að koma sjónarmiðum barna á framfæri við undirbúning lagasetningar og við stefnumótun á þingi og í stjórnsýslunni. Þá sagði hann einnig frá góðum árangri Barnahúss og hvatti ríki sem ekki hefðu svipað fyrirkomulag til að koma því á laggirnar.
    Í ályktun um refsivæðingu óreglulegra farandverkamanna sagðist þingið lengi hafa fordæmt sífellt harðari stefnu ríkja gagnvart farandverkamönnum sem fælu í sér aukna félagslega útskúfun og takmarkaðan aðgang að mann- og félagsréttindum. Orðtakið „farandverkamaður“ fæli í sér ákveðna fordóma, sérstaklega þegar það væri tengt við ólöglegt athæfi. Ytri landamærastefna Evrópusambandsins tengdi farandverkamenn við glæpsamlegt athæfi og gerði þannig flutning fólks á milli landa að innra öryggismáli ríkja og tengdi það við ógn við allsherjarreglu og félagsleg kerfi. Í því sambandi undirstrikaði þingið mikilvægi þess að nota orðtakið „óreglulegir“ en ekki „ólöglegir“ eða „ótilkynntir“ (e. undeclared) farandverkamenn. Röng notkun hugtaka ætti sinn þátt í því að auka útlendingahatur og kynþáttafordóma. Þingið fordæmdi jafnframt hörku dómstóla í málum þar sem farandverkamenn væru handteknir, settir í fangelsi og dæmdir sem afbrotamenn og lagði til að varðhald yrði einungis notað sem lokaúrræði, sérstaklega í tilfellum hælisleitenda. Þá minnti þingið á að hælisleitendur ættu rétt á alþjóðlegri vernd og ferðafrelsi. Þingið kallaði eftir að aðildarríki efldu og virtu grundvallarréttindi farandverkamanna og notuðu orðtakið „óreglulegir farandverkamenn“ í stað „ólöglegir farandverkamenn“ í ræðum og opinberum skjölum. Þá kallaði þingið einnig eftir að aðildarríki nýttu aðrar lausnir en varðhald eins og mögulegt væri og efldi baráttuna gegn mansali og smygli á farandverkamönnum.
    Í ályktun um ógnir við menningararfleifð ríkja lýsti þingið yfir miklum áhyggjum af þeirri kerfisbundnu eyðileggingu á menningararfleið sem nú væri orðinn einn af meginþáttum átaka milli þjóðarbrota, yfirleitt af höndum vopnaðra sveita sem tilheyrðu ekki her ríkis og án formlegrar stríðsyfirlýsingar. Þróunin væri í andstöðu við Haag-sáttmálann um verndun menningarverðmæta í vopnuðum átökum frá 1954 (e. Hague Convention on the Protection of Cultural Property in the Event of Armed Conflict) og Genfarsáttmálann um vernd almennra borgara á stríðstímum frá 1949 (e. Geneva Convention relative to the Protection of Civilian Persons in Time of War) og bókanir við hann frá 1977. Að mati þingsins væri vernd menningararfleifðar í tengslum við átök mannréttindamál sem ætti að fela í sér alþjóðlega ábyrgð. Þingið mæltist til þess að aðildarríki Evrópuráðsins undirrituðu og fullgiltu rammasamning Evrópuráðsins um gildi menningararfleifðar fyrir samfélagið (e. The Council of Europe's Framework Convention on the Value of Cultural Heritage for Society) og yfirlýsingu evrópsku landslagsráðstefnunnar (e. The European Landscape Convention). Þá mælti þingið með því að aðildarríki Evrópuráðsins, í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og aðrar viðeigandi stofnanir, íhuguðu að endurskoða og styrkja ákvæði Haag-sáttmálans um verndun menningarverðmæta í vopnuðum átökum og Genfarsáttmálann um vernd almennra borgara á stríðstímum, og bókanir við hann, með það að markmiði að efla forvarnir og herða viðurlög við brotum. Loks mælti þingið með því að aðildarríki festu í lög að kerfisbundin, vísvitandi og markviss eyðilegging menningarverðmæta væri skilgreind sem glæpur gegn mannkyninu og þau þróuðu frekari leiðir til að draga gerendur fyrir innlenda og alþjóðlega dómstóla.
    Í ályktun um úthlutun sæta í Evrópuráðsþinginu með tilliti til Tyrklands kom fram að úthlutun sæta í Evrópuráðsþinginu til aðildarríkja, sem byggist á íbúafjölda, hefði ekki tekið breytingum frá árinu 1977. Síðan þá hefði íbúafjöldi Tyrklands farið úr 40 milljónum í 77 milljónir. Þingið teldi rétt að verða við ósk tyrknesku landsdeildarinnar um að fjölga sætum hennar í Evrópuráðsþinginu í tólf. Þingið studdi einnig beiðni Tyrklands um að bæta tyrknesku við sem einu af vinnumálum þingsins, að því skilyrði uppfylltu að Evrópuráðið þægi boð Tyrklands um að verða einn af aðalframlagsveitendum ráðsins. Samhliða breytingunni mundi fjöldi sæta Tyrklands í nefndum þingsins og framkvæmdastjórn aukast og Tyrkland fengi einn af varaforsetastólum þingsins.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 22.–26. júní 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Karl Garðarsson, formaður, og Ögmundur Jónasson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Helstu mál á dagskrá voru endurskoðun á fullgildingu kjörbréfa landsdeildar Rússlands, málefni flóttamanna, virkni lýðræðisstofnana í Aserbaídsjan og Ungverjalandi og afdrif týndra einstaklinga vegna átakanna í Úkraínu. Fram fór utandagskrárumræða um þörfina fyrir sameiginleg viðbrögð Evrópuríkja við flóttamannavandanum á Miðjarðarhafi og Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, ávarpaði þingið. Þá var Karl Garðarsson kjörinn fyrsti varaformaður stjórnmála- og lýðræðisnefndar þingsins.
    Í ályktun um endurskoðun á fullgildingu kjörbréfa landsdeildar Rússlands mat þingið það svo að opnar samræður í góðri trú væru mikilvægar í því skyni að finna varanlega lausn, byggða á alþjóðalögum og -reglum, á átökunum í austurhluta Úkraínu og ólöglegri innlimun Krímskaga. Í því ljósi var samþykkt að ógilda ekki kjörbréf landsdeildar Rússlands að sinni en að landsdeildin hefði enn um sinn hvorki atkvæðisrétt né rétt til að sitja í helstu stjórnum þingsins og taka þátt í kosningaeftirliti. Í ályktuninni segir að rússneska þingið og landsdeild þess hjá Evrópuráðsþinginu verði nú að hefja samræður við þingið á ný, án skilyrða, um skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu, þar á meðal hvað varðar stefnu Rússa gagnvart nágrannaríkjum. Í ályktuninni er undirstrikað að samþykki slíkra samræðna sé grunnregla aðildar að Evrópuráðsþinginu sem öll aðildarríki verði að fylgja. Sem fyrsta skref ætti rússneska landsdeildin að taka á ný þátt í vinnu eftirlitsnefndar þingsins og heimila framsögumönnum nefndarinnar gagnvart Rússlandi að sækja landið heim í tengslum við störf þeirra.
    Í ályktun um virkni lýðræðisstofnana í Aserbaídsjan fordæmdi þingið versnandi vinnuaðstæður borgaralegra samtaka og verndara mannréttinda og kallaði eftir að stjórnvöld hættu kerfisbundinni áreitni í garð þeirra sem gagnrýna þau og tryggðu skilvirkt mat ríkissaksóknara á tilraunum til slíks. Þá kallaði þingið eftir að stjórnvöld í Aserbaídsjan framfylgdu að fullu dómum Mannréttindadómstóls Evrópu, tryggðu aðskilnað valds, styrktu eftirlit þjóðþingsins með framkvæmdarvaldinu, tryggðu sjálfstæði dómstóla og hvettu til fjölhyggju, frjálsra kosningaherferða og fjölmiðlafrelsis fyrir þingkosningarnar í nóvember 2015.
    Í ályktun um afdrif týndra einstaklinga vegna átakanna í Úkraínu lýsti þingið yfir miklum áhyggjum af vaxandi fjölda týndra einstaklinga vegna átakanna í héruðunum Donetsk og Luhansk í Úkraínu og á Krímskaga. Ekki sé einungis um að ræða hermenn heldur einnig almenna borgara, þar á meðal sjálfboðaliða sem voru að hjálpa fórnarlömbum átakanna. Lagt var til að veitt yrði sérstök aðstoð til fjölskyldna týndra einstaklinga. Það væri á ábyrgð rússneskra og úkraínskra stjórnvalda og þeirra aðskilnaðarhópa sem hafa yfirráð yfir héruðunum Donetsk og Luhansk að hjálpa fjölskyldum að finna ástvini sína án frekari tafar.
    Í utandagskrárumræðu um flóttamenn á Miðjarðarhafi var kallað eftir að þingmenn hvettu evrópska leiðtoga til að deila ábyrgðinni á flóttamönnum. Þeir ættu að sýna meiri samheldni þegar kæmi að því að taka á móti flóttamönnum í sínum heimalöndum og styðja þau ríki sem tækju mestu ábyrgðina í því sambandi. Aukin samvinna aðildarríkja Evrópuráðsþingsins væri raunhæf lausn á vandamálinu. Að deila ábyrgðinni væri ekki einungis lagaleg skylda heldur einnig mannúðleg.
    Í ávarpi sínu fullvissaði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Evrópu um að hún hefði stuðning Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn ofbeldishneigðri öfgahyggju og aukinni andúð gegn gyðingum og múslimum og annarri mismunun. Þá lagði hann áherslu á réttindi flóttamanna, hælisleitenda og farandverkamanna og lagði í því sambandi til að mótaðar yrðu lagalegar leiðir fyrir búferlaflutninga og sameiningu fjölskyldna.
    Karl Garðarsson tók þátt í umræðum um aukið gagnsæi þegar kemur að eignarhaldi fjölmiðla og um ábyrgð fjölmiðla og siðareglur í breyttu fjölmiðlaumhverfi fyrir hönd síns flokkahóps. Hann sagði að í ljósi þess að sumir eigendur fjölmiðla beittu þeim sér í hag, bæði efnahagslega og pólitískt, væri gagnsæi þegar kæmi að eignarhaldi fjölmiðla afar mikilvægt. Almenningur hefði rétt á að vita hvaðan upplýsingar kæmu, hver stæði fyrir þeim og hver bæri ábyrgð á þeim. Það væri eina leiðin fyrir almenning til að mynda sér skoðun á virði upplýsinga, hugmynda og álita í fjölmiðlum. Það væri áhyggjuefni að eignarhald fjölmiðla væri einsleitara í dag en áður, fjölmiðlafyrirtæki væru færri og stærri sem yki þrýsting á blaðamenn um að uppfylla markmið eigendanna. Á Íslandi krefðist löggjöf landsins þess að upplýsingar um eignarhald væru opinberar og það væri hlutverk fjölmiðlanefndar að halda utan um þær. Hann hvatti þau aðildarríki sem ekki státuðu af þess konar fyrirkomulagi að koma slíku á fót. Loks sagði hann eignarhald fjölmiðla og siðareglur fjölmiðlamanna augljóslega nátengd. Afar erfitt væri fyrir blaðamenn að fylgja siðareglum ef markmið yfirmanna þeirra væri að villa um fyrir almenningi sér í hag. Það gerði stöðuna afar erfiða að sífellt fleiri blaðamenn í Evrópu störfuðu einmitt undir þannig kringumstæðum.
    Ögmundur Jónasson tók þátt í umræðum um aukna vernd fyrir uppljóstrara. Hann sagði afar mikilvægt að skapað yrði staðlað kerfi þegar kæmi að uppljóstrurum. Hvorki ætti að líta á uppljóstrara sem fórnarlömb né hetjur, heldur ætti uppljóstrun að vera óaðskiljanlegur hluti af lýðræðinu. Hann þakkaði Wikileaks og Julian Assange, stofnanda samtakanna. Þá sagðist hann sannfærður um að þingmenn Evrópuráðsþingsins litu ekki á Edward Snowden sem svikara heldur væru þakklátir honum. Þeim sem væri annt um lýðræðið og frelsi einstaklingsins ættu að sýna þakklæti sitt með því að bjóða Edward Snowden hæli og öryggi.
    Ögmundur gagnrýndi þá ákvörðun að meina Rússum aðgang að þingi Evrópuráðsins enda væri Evrópuráðið fyrst og fremst stofnun almennings gegn stjórnvöldum en ekki ríkjasamband eða bandalag eins og Evrópusambandið eða NATO. Kvað hann skjóta skökku við að hlusta á breska þingmenn með refsivönd á lofti í ljósi forsögu þeirra í Írak og víðar án þess að það hafi þótt ástæða brottrekstrar úr Evrópuráðinu eða takmörkunar á réttindum þar. Hann vísaði til umræðu sem fram hefði farið á þinginu um mannréttindi í einstökum ríkjum, svo sem Aserbaídsjan. Tilfinningahiti hefði verið mikill í þeim umræðum og skoðanir skiptar. Þetta væri gott og heilbrigðisvottur, sýnishorn af þeim vettvangi sem Evrópuráðið ætti að vera.
    Ögmundur tók einnig þátt í umræðum um stöðu mála í Ungverjalandi fyrir hönd síns flokkahóps. Hann sagði skýrslu þingsins um málið sýna að stjórnvöld í Ungverjalandi hefðu gert einhverjar endurbætur í samræmi við tilmæli Evrópuráðsþingsins en enn þá væri ýmsu ábótavant þegar kæmi að lagaramma landsins og pólitískum þrýstingi. Þingið ætti að hafa í huga varnaðarorð Mannréttindavaktarinnar (e. Human Rights Watch) og nýjustu fréttir af þeirri ákvörðun stjórnvalda að koma í veg fyrir að fólk geti sótt um hæli í Ungverjalandi með því að reisa múr við landamæri Ungverjalands og Serbíu. Það væri því niðurstaða flokkahóps hans að Evrópuráðsþingið ætti að halda áfram eftirliti með Ungverjalandi. Í ályktun þingsins var samþykkt að ljúka sérstakri skoðun þingsins á stöðu fyrrgreindra mála í Ungverjalandi.     Loks tók Ögmundur þátt í umræðum um aukið samstarf gegn nethryðjuverkum og öðrum stórum árásum á veraldarvefnum fyrir hönd síns flokkahóps. Hann sagði mikilvægt að reyna að svara þeirri grundvallarspurningu hvort fýsilegt væri að ríki væru algjörlega háð internetinu sem meginstoð allrar starfsemi samfélaga. Internetið yrði alltaf óöruggt að einhverju leyti og því þyrfti að taka upp verndarráðstafanir. Ef til stæði að refsivæða nethryðjuverk væri mikilvægt að samhliða yrði gerð jafnsterk krafa á stjórnvöld að refsivæða ekki öflun upplýsinga í almannaþágu, eins og í tilfelli Wikileaks.
    Af öðru sem var samþykkt á þinginu má nefna ályktun um samstarf Evrópuráðsþingsins við þing Marokkó, nýtt evrópskt félagsmálakerfi og nýja tegund kynþáttafordóma (e. neo- racism).

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 28. september – 2. október 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Karl Garðarsson formaður, Ögmundur Jónasson og Brynjar Þór Níelsson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Helstu mál á dagskrá voru flóttamannavandinn í Evrópu, hagsmunir lyfjaiðnaðarins, trúfrelsi og reglulegt eftirlit með öllum aðildarríkjum ráðsins. Wojciech Sawicki var endurkjörinn framkvæmdastjóri Evrópuráðsþingsins til fimm ára, með 140 atkvæðum gegn 108 atkvæðum mótframbjóðandans, Svetislavu Bulajic, fyrrverandi þingkonu frá Serbíu. Framkvæmdastjórn þingsins ákvað að senda nefnd þingmanna til kosningaeftirlits í Aserbaídsjan 1. nóvember 2015 þrátt fyrir að Lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE, ODIHR, hefði ákveðið að gera það ekki vegna þeirra takmarkana sem stjórnvöld landsins hugðust setja á störf stofnunarinnar. ODIHR rannsakar ítarlega aðstæður í því landi þar sem kosningaeftirlit fer fram og veitir sendinefndum alþjóðlegra þinga mikilvægan stuðning við störf sín á meðan á skammtímaeftirliti þeirra stendur. Að mati framkvæmdastjórnar þingsins er kosningaeftirlit nauðsynlegt í ríkjum sem eru undir sérstöku eftirliti þingsins líkt og Aserbaídsjan og skýrsla sendinefndar þingsins um kosningarnar ómissandi hluti af því starfi.
    Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, sat fyrir svörum í fyrirspurnartíma á fyrsta degi þingfunda. Karl Garðarsson spurði Jagland hvort viðræður væri í gangi milli Evrópuráðsins og Rússlands um stöðu landsins innan ráðsins, og vísaði til funda forseta Bandaríkjanna og Rússlands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um aukna hernaðarlega íhlutun Rússa í Sýrlandi og neyðarástandið í Úkraínu. Jagland svaraði að ekki einungis væru í gangi viðræður milli ráðsins og Rússlands heldur hefði ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkt fjölda ákvarðana um ólöglega innlimun Rússa á Krímskaga og hlutdeild þeirra í málefnum Austur-Úkraínu. Samhliða því styddi Evrópuráðið viðleitni Úkraínumanna við að byggja upp traust ríki þar sem spilling þrifist ekki. Ástandið í Sýrlandi væri hins vegar ekki til umræðu þar sem Evrópuráðið hefði ekki umboð til að taka á því. Það væri á ábyrgð öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að tryggja frið og öryggi í heiminum og hvað Sýrland varðaði hefði öryggisráðið brugðist.
    Í umræðum um flóttamannavandann í Evrópu var annars vegar rætt og ályktað um þörfina fyrir nýjar aðferðir fyrir móttöku hælisleitenda sem koma til álfunnar og hins vegar þær áskoranir sem þau ríki sem flóttamenn hafa viðkomu í standa frammi fyrir. Þingið mælti með því að Evrópusambandið og aðildarríki þess mótuðu skuldbindandi reglur um móttöku og flutning hælisleitenda milli aðildarríkja í viðleitni sambandsins til að bæta framkvæmd Dyflinnarreglugerðarinnar og annarra reglna um móttöku flóttamanna. Þá mælti þingið með því að búin yrði til sérstök lagaleg staða „evrópskra flóttamanna“ sem gætu á grunni þeirrar stöðu flutt búferlum milli aðildarríkja og notið sömu réttinda í þeim öllum, eða að öðrum kosti að flóttamenn sem eru undir alþjóðlegri vernd fái langtímadvalarleyfi að tveimur árum liðnum. Hvað varðar Dyflinnarreglugerðina kallaði þingið eftir að Evrópusambandið og aðildarríki þess hæfu án tafar heildræna endurskoðun á henni. Í ályktun um þær áskoranir sem þau ríki sem flóttamenn hafa viðkomu í standa frammi fyrir mælti þingið með því að Evrópusambandið tryggði samræmi í stefnu sinni gagnvart flóttamönnum, virti mannréttindi og réttarríkið og forðaðist að einblína á landamæraeftirlit og öryggismál. Þingið óskaði jafnframt eftir því að aðildarríki Evrópuráðsins sendu hælisleitendur ekki til baka til Líbanons, Jórdaníu, Tyrklands, Grikklands, Makedóníu, Serbíu eða Ungverjalands eða annarra ríkja sem bera mestan þunga af flóttamannastraumnum eða þar sem öryggi hælisleitenda er ekki tryggt af hálfu móttökuríkjanna. Í tilmælum til ráðherranefndar Evrópuráðsins hvatti þingið nefndina til að tryggja mannréttindi flóttamanna í samstarfi sínu við þriðju ríki og styðja viðkomandi ríki í viðleitni þeirra við að auka vernd flóttamanna og við að móta heildstæða stefnu fyrir aðlögun flóttamanna.
    Ögmundur Jónasson tók þátt í umræðum um lýðheilsu og hagsmuni lyfjaiðnaðarins fyrir hönd síns flokkahóps. Hann sagði umræðuna afar mikilvæga í ljósi vaxandi áhyggna Evrópubúa af snarhækkandi lyfjaverði. Sem dæmi hefði ein tafla af alnæmislyfinu Daraprim hækkað í verði um 5.500% eftir að fyrirtækið sem framleiddi lyfið var keypt af spákaupmönnum á fyrri hluta ársins 2015. Umræðan væri erfið og viðkvæm, hann hefði kynnst því vel sem heilbrigðisráðherra. Fólk sem ætti við erfið heilsufarsvandamál að stríða gagnrýndi stjórnvöld oft harðlega fyrir að samþykkja ekki kröfur lyfjafyrirtækjanna, í þeirri von að fá lyf sem gætu bjargað lífi þess eða gert það bærilegra. Þörf væri á regluverki sem kvæði á um gagnsæi í lyfjaiðnaðnum og samskiptareglur lyfjaiðnaðarins og heilbrigðiskerfisins, strangari reglum um leyfisveitingar og markvissa menntun heilbrigðisstarfsmanna um eðli þessarar starfsemi.
    Ögmundur tók einnig þátt í umræðum um trúfrelsi fyrir hönd síns flokkahóps. Hann sagði ákall eftir umburðarlyndi og virðingu fyrir fjölhyggju einstaklega mikilvægt nú þegar heimurinn væri bókstaflega á faraldsfæti, þar sem hundruð þúsunda eða jafnvel milljónir manna væru á vergangi, oftar en ekki að flýja stríð og fátækt. Það væri yndislegt að upplifa göfuglyndi og hjartahlýju almennra borgara þegar kæmi að móttöku flóttamanna og eins hræðilegt og ástandið væri kallaði það hugsanlega fram það besta í fólki í mótttökuríkjunum. En það væru ekki allir jafn umburðarlyndir, sumir væru fjandsamlegir í garð flóttamanna og héldu því fram að þeir græfu undir t.d. kristnum gildum. Því væri mikilvægi umræðunnar mikið. Loks tók hann sérstaklega undir mikilvægi tilmæla þingsins til ráðherranefndar Evrópuráðsins um að setja á fót umræðuvettvang ráðsins og fulltrúa trúar- og lífskoðunarsamtaka í Evrópu.
    Fyrir hönd síns flokkahóps tók Ögmundur Jónasson einnig þátt í umræðum um þá ákvörðun Evrópuráðsþingsins að hefja reglulegt eftirlit með öllum aðildarríkjum ráðsins til að ganga úr skugga um að þau uppfylltu skyldur sínar gagnvart ráðinu. Áður hafði þingið einungis eftirlit með ákveðnum ríkjum. Hann sagði ákvörðunina jákvæða, með því að hafa eftirlit með öllum aðildarríkjum gæti þingið komist hjá því að vera sakað um fordóma eða tvöfalt siðgæði. Líta ætti á eftirlitið sem uppbyggilegt tæki sem gæfi aðildarríkjum færi á að bæta sig og sem gæti greitt götu framfara á sviði mannréttinda. Eftirlitið leiddi til framfara þegar kæmi að mannréttindum, á því væri enginn vafi. Hann gagnrýndi jafnframt aðkomu margra þingmanna að starfi eftirlitsnefndarinnar á þeirri forsendu að þeir drægju taum flokka og ríkja í starfi sínu innan nefndarinnar í stað þess að sinna því hlutverk einu sem þeim væri ætlað, þ.e. að standa vörð um mannréttindi.
    Loks tók Ögmundur þátt í umræðum um ályktun um jafna ábyrgð foreldra í uppeldi barna og hlutverk feðra í því sambandi. Hann tók undir tillögur ályktunarinnar um að auðvelda bæri feðrum að umgangast börn sín. Eðlilegt væri að foreldrar deildu umráðarétti yfir börnum sínum eftir skilnað, þróunin væri í þá átt og væri það ánægjulegt. Í erfiðum skilnaðarmálum væri mikilvægt að til staðar væri faglegt sáttaferli til að stuðla að slíku samkomulagi eins og hefði verið gert á Íslandi. Í tíð sinni sem innanríkisráðherra hefði hann lagt ríka áherslu á að styrkja slíkt ferli.
    Af öðru sem var samþykkt á þinginu má nefna ályktun um starf Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), framkvæmd dóma Mannréttindadómstóls Evrópu, þá iðju stjórnvalda í sumum aðildarríkjum Evrópuráðsins að halda einstaklingum í varðhaldi áður en dæmt hefur verið í pólitískt viðkvæmum málum og stefnu Evrópu gagnvart lyfjamisnotkun.

Stjórnarnefndarfundur Evrópuráðsþingsins í Sofíu 27. nóvember 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar sótti fundinn Karl Garðarsson, formaður, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru kosningaeftirlit í Kirgistan, Hvíta-Rússlandi, Aserbaídsjan og Tyrklandi, örlög alvarlega veikra fanga í Evrópu, fólksflutningar frá Kína til Evrópu og bestu starfsvenjur í baráttunni gegn ofbeldi gegn konum. Loks voru utandagskrárumræður um alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi í tengslum við hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember 2015.
    Eftirlitsnefnd Evrópuráðsþingsins komst að þeirri niðurstöðu að í þingkosningunum í Kirgistan 4. október 2015 hefðu kjósendur getað valið á milli fjölda ólíkra frambjóðenda og framkvæmd kosninganna hefði verið gagnsæ og vel skipulögð. Þá hefðu kosningarnar farið fram á friðsamlegan máta, ólíkt fyrri kosningum. Nefndin taldi þó miður að ekki hefðu verið gerðar breytingar á kosningalöggjöf landsins eftir ráðleggingum Feneyjanefndarinnar frá árinu 2011, þar á meðal þegar kemur að því að tryggja stjórnarskrárvarinn rétt allra borgara til að taka þátt í kosningum í landinu og fjármögnun stjórnmálaflokka og kosningaherferða.
    Eftirlitsnefnd Evrópuráðsþingsins komst að þeirri niðurstöðu að forsetakosningarnar í Hvíta-Rússlandi 11. október 2015 sýndu að landið ætti langt í land með að halda lýðræðislegar kosningar. Á kosningadegi hefðu kjósendur getað kosið á gagnsæjan hátt í viðurvist alþjóðlegra eftirlitsaðila en mörgu hefði verið ábótavant við talningu atkvæða, reglur um starf eftirlitsaðila, kosningalöggjöfina, misnotkun á opinberum tilföngum sitjandi forseta í hag, fjármögnun kosningaherferða og aðgang frambjóðenda að fjölmiðlum sitjandi forseta í hag. Nefndin fagnar því að Hvíta-Rússland hafi boðið Evrópuráðsþinginu að hafa eftirlit með kosningunum, en 14 ár voru síðan þingið fékk slíkt boð frá stjórnvöldum landsins.
    Eftirlitsnefnd Evrópuráðsþingsins komst að þeirri niðurstöðu að þingkosningarnar í Aserbaídsjan 1. nóvember 2015 hefðu verið haldnar í samræmi við kosningalöggjöf landsins og töluvert aukin kosningaþátttaka og gagnsæi við þátttöku í kosningunum og talningu atkvæða væri enn eitt skref stjórnvalda í Aserbaídsjan í átt að frjálsum, sanngjörnum og lýðræðislegum kosningum. Nefndin mat það sem svo að niðurstöður kosninganna væru í samræmi við vilja fólksins í landinu. Nefndin harmaði þó stöðu mannréttinda í landinu, sérstaklega varðandi pólitíska fanga og hvatti stjórnvöld til að taka ítarlega til greina ábendingar ráðherranefndar Evrópuráðsins, Feneyjanefndarinnar, Evrópuráðsþingsins og fulltrúa minnihlutahópa um virkni lýðræðislegra stofnana í landinu og virða skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu á sviði mannréttinda og mannfrelsis. Fjórir meðlimir eftirlitsnefndarinnar voru ósáttir við textann í áliti meiri hluta nefndarinnar og skiluðu því séráliti en þar sagði að ekki væri hægt að líta á kosningarnar sem skref í átt að frjálsum, sanngjörnum og lýðræðislegum kosningum því staða pólitísks frelsis, tjáningarfrelsis, fjölmiðlafrelsis og fundafrelsis í landinu hefði versnað í aðdraganda kosninganna. Handtökur og ákærur gegn blaðamönnum og öðrum sem gagnrýna stjórnvöld hefðu aukist, fólki sem tekur þátt í mótmælum væri í auknum mæli refsað, fundafrelsi hefði verið takmarkað enn frekar, valdbeiting lögreglu hefði aukist, komið hefði verið í veg fyrir að borgaraleg samtök gætu sinnt starfi sínu og fjölmiðlafrelsi hefði verið skert enn frekar. Tveir meðlimir vinstri flokkahóps Evrópuráðsþingsins, þar á meðal Ögmundur Jónasson, skrifuðu ekki heldur undir álit meiri hlutans en sendu frá sér yfirlýsingu. Í henni segir að virðing fyrir mannréttindum verði alltaf að vera forsenda virks lýðræðis. Þá forsendu hafi vantað í álit meiri hlutans. Jafnvel þó að kosningarnar hafi sýnt fram á ýmsa jákvæða þróun í kosningaferli landsins í samanburði við fyrri kosningar hafi kosningarnar ekki verið frjálsar og sanngjarnar í ljósi slæmrar stöðu mannréttinda, þar á meðal varðhalds verndara mannréttinda og blaðamanna og ójafns aðgangs frambjóðenda að fjölmiðlum.
    Eftirlitsnefnd Evrópuráðsþingsins komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmd þingkosninga í Tyrklandi á kosningadegi 1. nóvember 2015 hefði verið góð, þrátt fyrir krefjandi aðstæður öryggismála á meðan á kosningabaráttunni stóð. Kjósendur hefðu getað valið á milli fjölbreyttra frambjóðenda, aðstæður á kjörstöðum verið gagnsæjar og skilvirkar og þátttaka tyrknesks almennings í skipulagi og þátttöku í kosningunum mikil. Fundafrelsi, tjáningarfrelsi og kosningaréttur væri þó að nokkru leyti takmarkaður í stjórnarskrá landsins og almennri löggjöf. Fjölmiðlaumfjöllun hefði t.d. verið sitjandi stjórnvöldum töluvert í hag. Nefndin óskaði eftir að friðarviðræðum til að leysa deiluna við Kúrda yrði haldið áfram í kjölfar kosninganna, en lausn deilunnar væri grundvöllur fyrir lýðræðislegum langtímastöðugleika í landinu. Eftirlitsnefndin kallaði jafnframt eftir því að tyrknesk stjórnvöld endurskoðuðu og aðlöguðu löggjöf sína um tjáningarfrelsi, jafnan aðgang frambjóðenda að fjölmiðlum og fjármögnun kosningaherferða og stjórnmálaflokka í samræmi við tilmæli Evrópuráðsþingsins, Feneyjanefndarinnar, ÖSE/ODIHR og GRECO.
    Í utandagskrárumræðum um alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi var lögð áhersla á mikilvægi þess að vernda gildi Evrópuráðsins í baráttunni við hryðjuverk. Þingmenn ættu að tryggja að þær leiðir sem aðildarríki færu í baráttunni tryggðu vernd mannréttinda og væru í samræmi við lög og reglur. Forseti Evrópuráðsþingsins, Anne Brasseur, lagði megináherslu á að berjast gegn rótum vandans, þ.e. hatri, mismunun og umburðaleysi. Hún hvatti þjóðþing aðildarríkjanna til að fullgilda viðbótarbókun varðandi erlenda vígamenn hryðjuverkasamtaka og bauð þingmönnum að taka þátt í herferð Evrópuráðsins gegn hatri (e. No Hate Campaign).
    Í ályktun um örlög alvarlega veikra fanga í Evrópu var brýnt fyrir aðildarríkjunum að tryggja að löggjöf þeirra um heilbrigðisþjónustu fanga væri í samræmi við alþjóðlega staðla. Kallað var eftir því að mjög veikum föngum yrði gert kleift að sækja sér tímabundna sérhæfða læknisaðstoð utan fangelsis og að öldruðum föngum eða þeim sem hafa banvæna sjúkdóma yrði sleppt úr fangelsi fyrr en dómur segir til um til að geta dáið með reisn utan veggja fangelsis. Loks var bent á að aðstæður fatlaðs fólks í varðhaldi vektu upp svipaðar áhyggjur og þeim sem lýst var hér að ofan og að Evrópuráðsþingið ætti að kanna það málefni sérstaklega. Í tilmælum til ráðherranefndar Evrópuráðsins eru aðildarríki hvött til að vinna og deila kerfisbundið með hvert öðru ítarlegri tölfræði um umsóknir og úthlutanir leyfa úr refsivist.
    Í ályktun um fólksflutninga frá Kína til Evrópu er kallað eftir að aðildarríki auki samstarf við kínversk yfirvöld um óreglulega farandflutninga og rannsókn sakamála tengd mansali og smyglstarfsemi milli Evrópu og Kína. Einnig er kallað eftir að kínverskum innflytjendayfirvöldum, lögreglu, embættismönnum og ferðaþjónustufyrirtækjum verði útveguð þjálfun til að geta betur borið kennsl á sviksamleg skjöl og smyglstarfsemi. Þá er kallað eftir að kínversku farandverkafólki verði gert betur kleift að vinna löglega í Evrópu, öðlast ríkisborgararétt og langtímaatvinnuleyfi og að hæfum kínverskum stúdentum verði auðveldað að finna vinnu í Evrópu eftir nám.
    Í ályktun um bestu starfsvenjur í baráttunni gegn ofbeldi gegn konum er rifjað upp mikilvægt hlutverk Evrópuráðsþingsins og þjóðþinga aðildarríkjanna við að tryggja framkvæmd Istanbúlsamningsins um ofbeldi gegn konum, bæði sem löggjafar- og eftirlitsaðila. Kallað er eftir að aðildarríki undirriti og fullgildi Istanbúlsamninginn og framkvæmi ákvæði hans á skilvirkan hátt, rannsaki málefnið og tryggi fullnægjandi fjármögnun fyrir forvarnir og aðstoð og vernd fyrir fórnarlömb.

5. Nefndarfundir utan þinga.
    Formaður Íslandsdeildar, Karl Garðarsson, sótti fundi stjórnmála- og lýðræðisnefndar í mars og júní, fundi eftirlitsnefndar í mars og september, fund menningarmálanefndar í október, auk stjórnarnefndarfunda í maí og nóvember. Ögmundur Jónasson sótti fundi flóttamannanefndar í mars og september, félagsmálanefndar í mars, maí, september og nóvember og fund eftirlitsnefndar í september.
    Til viðbótar við almenna nefndarfundi tók Karl Garðarsson þátt í ferð sérstakrar nefndar Evrópuráðsþingsins um stríðan straum flóttamanna til Tyrklands 15.–16. júní 2015 en nefndin heimsótti flóttamannabúðir í héraðinu Gaziantep á landamærum Tyrklands og Sýrlands. Ögmundur Jónasson sinnti eftirliti með þingkosningum í Aserbaídsjan 1. nóvember 2015 fyrir hönd síns flokkahóps.

Alþingi, 26. janúar 2016.

Karl Garðarsson,
form.
Unnur Brá Konráðsdóttir,
varaform.
Ögmundur Jónasson.



Fylgiskjal.


Ályktanir, tilmæli og álit Evrópuráðsþingsins árið 2015.


    Ályktun er ákvörðun Evrópuráðsþingsins eða yfirlýsing um afstöðu þess í tilteknu máli. Tilmæli eru tillögur sem alla jafna byggjast á ályktunum þingsins og er beint til ráðherranefndarinnar sem tekur þær til umfjöllunar og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum eða tillögu að lagasetningu í aðildarríkjunum. Álit eru oftast gefin sem umsögn eða svör við spurningum sem ráðherranefndin beinir til þingsins, t.d. varðandi inngöngu nýrra aðildarríkja en einnig um fjárlög Evrópuráðsins og drög að nýjum Evrópusamningum.
    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum og stjórnarnefndarfundum Evrópuráðsþingsins árið 2015:

Fyrsti hluti þingfundar 26.–30. janúar:
    –        Tilmæli 2060 um framkvæmd samkomulags milli Evrópuráðsins og Evrópusambandsins.
    –        Tilmæli 2061 um hryðjuverkaárásirnar í París: sameinuð í lýðræðislegum viðbrögðum.
    –        Tilmæli 2062 um vernd blaðamanna og fjölmiðlafrelsis í Evrópu.
    –        Tilmæli 2063 um vitnavernd sem ómissandi tæki í baráttunni gegn skipulögðum glæpum og hryðjuverkum í Evrópu.
    –        Tilmæli 2064 um jafnrétti fatlaðs fólks.
    –        Ályktun 2028 um stöðu mannúðarmála í Úkraínu þegar kemur að flóttamönnum og vegalausu fólki.
    –        Ályktun 2029 um framkvæmd samkomulags milli Evrópuráðsins og Evrópusambandsins.
    –        Ályktun 2030 um hvernig Svartfjallaland hefur staðið við aðildarskuldbindingar sínar.
    –        Ályktun 2031 um hryðjuverkaárásirnar í París: sameinuð í lýðræðislegum viðbrögðum.
    –        Ályktun 2032 um jafnrétti og efnahagskreppuna.
    –        Ályktun 2033 um að verja réttinn til að semja sameiginlega um laun, þar á meðal réttinn til að fara í verkfall.
    –        Ályktun 2034 um endurskoðun á kjörbréfum landsdeildar Rússlands.
    –        Ályktun 2035 um vernd blaðamanna og fjölmiðlafrelsis í Evrópu.
    –        Ályktun 2036 um að takast á við umburðarleysi og mismunun í Evrópu með sérstakri áherslu á kristna menn.
    –        Ályktun 2037 um flokkaflakk þingmanna eftir að þeir hafa verið kjörnir á þing og áhrif þess á samsetningar landsdeilda.
    –        Ályktun 2038 um vitnavernd sem ómissandi tæki í baráttunni gegn skipulögðum glæpum og hryðjuverkum í Evrópu.
    –        Ályktun 2039 um jafnrétti fatlaðs fólks.

Stjórnarnefndarfundur 6. mars:
    –        Tilmæli 2065 um evrópskar stofnanir og mannréttindi í Evrópu.
    –        Tilmæli 2066 um hreyfanleika stúdenta.
    –        Ályktun 2040 um ógnir við réttarríkið í aðildarríkum Evrópuráðsins: umboð Evrópuráðsþingsins.
    –        Ályktun 2041 um evrópskar stofnanir og mannréttindi í Evrópu.
    –        Ályktun 2042 um að tryggja yfirgripsmikla meðhöndlun barna með athyglisraskanir.
    –        Ályktun 2043 um lýðræðislega þátttöku farandverkafólks.
    –        Ályktun 2044 um hreyfanleika stúdenta.

Annar hluti þingfundar 20.–24. apríl:
    –        Álit 288 um fjárhagsáætlun og forgangsatriði Evrópuráðsins fyrir árin 2016 og 2017.
    –        Álit 289 um drög að viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um varnir gegn hryðjuverkum.
    –        Tilmæli 2067 um fjöldaeftirlit.
    –        Tilmæli 2068 um félagsþjónustu í Evrópu: löggjöf og sú iðja að fjarlægja börn frá fjölskyldum sínum í aðildarríkjum Evrópuráðsins.
    –        Tilmæli 2069 um dróna og markviss dráp: þörfin á því að virða mannréttindi og alþjóðalög.
    –        Tilmæli 2070 um skilvirkni mannréttindasáttmála Evrópu: Brighton-yfirlýsingin og framhaldið.
    –        Ályktun 2045 um fjöldaeftirlit.
    –        Ályktun 2046 um útgjöld Evrópuráðsþingsins árin 2016 og 2017.
    –        Ályktun 2047 um afleiðingar af aðgerðum hryðjuverkahóps sem kennir sig við íslamskt ríki.
    –        Ályktun 2048 um mismunun gegn transfólki í Evrópu.
    –        Ályktun 2049 um félagsþjónusta í Evrópu: löggjöf og sú iðja að fjarlægja börn frá fjölskyldum sínum í aðildarríkjum Evrópuráðsins.
    –        Ályktun 2050 um mannlegan harmleik í Miðjarðarhafi: þörfin fyrir skjótar aðgerðir.
    –        Ályktun 2051 um dróna og markviss dráp: þörfin á því að virða mannréttindi og alþjóðalög.
    –        Ályktun 2052 um samræður við Mónakó eftir að formlegu eftirlitsferli er lokið.
    –        Ályktun 2053 um umbætur á stjórnunarháttum innan fótboltageirans.
    –        Ályktun 2054 um jafnrétti og bann við mismunun í aðgengi að réttarkerfinu.
    –        Ályktun 2055 um skilvirkni mannréttindasáttmála Evrópu: Brighton-yfirlýsingin og framhaldið.

Stjórnarnefndarfundur 22. maí:
    –        Tilmæli 2071 um ógnir við menningararfleifð ríkja.
    –        Tilmæli 2072 um úthlutun sæta í Evrópuráðsþinginu með tilliti til Tyrklands.
    –        Ályktun 2056 um mikilvægi þess að ákvæði um réttindi barna séu hluti af stjórnarskrám ríkja sem ómissandi hluti af skilvirkri stefnu ríkja um málefni barna.
    –        Ályktun 2057 um ógnir við menningararfleifð ríkja.
    –        Ályktun 2058 um úthlutun sæta í Evrópuráðsþinginu með tilliti til Tyrklands.
    –        Ályktun 2059 um refsivæðingu óreglulegra farandverkamanna: glæpur án fórnarlambs.

Þriðji hluti þingfundar 22.–26. júní:
    –        Tilmæli 2073 um aukna vernd fyrir uppljóstrara.
    –        Tilmæli 2074 um aukið gagnsæi þegar kemur að eignarhaldi fjölmiðla.
    –        Tilmæli 2075 um ábyrgð fjölmiðla og siðareglur í breyttu fjölmiðlaumhverfi.
    –        Tilmæli 2076 um afdrif týndra einstaklinga í kjölfar átakanna í Úkraínu.
    –        Tilmæli 2077 um aukið samstarf gegn nethryðjuverkum og öðrum stórum árásum á veraldarvefnum.
    –        Ályktun 2060 um aukna vernd fyrir uppljóstrara.
    –        Ályktun 2061 um mat á samstarfi Evrópuráðsþingsins við þing Marokkó.
    –        Ályktun 2062 um virkni lýðræðisstofnana í Aserbaídsjan.
    –        Ályktun 2063 um endurskoðun á fullgildingu kjörbréfa landsdeildar Rússlands.
    –        Ályktun 2064 um stöðu mála í Ungverjalandi í kjölfar samþykktar ályktunar 1941 (2013).
    –        Ályktun 2065 um aukið gagnsæi þegar kemur að eignarhaldi fjölmiðla.
    –        Ályktun 2066 um ábyrgð fjölmiðla og siðareglur í breyttu fjölmiðlaumhverfi.
    –        Ályktun 2067 um afdrif týndra einstaklinga í kjölfar átakanna í Úkraínu.
    –        Ályktun 2068 um nýtt evrópskt félagsmálakerfi.
    –        Ályktun 2069 um að viðurkenna og koma í veg fyrir nýja tegund kynþáttafordóma.
    –        Ályktun 2070 um aukið samstarf gegn nethryðjuverkum og öðrum stórum árásum á veraldarvefnum.

Fjórði hluti þingfundar 28. september – 2. október:
    –        Tilmæli 2078 um að mæta þeim áskorunum sem ríki sem flóttamenn hafa viðkomu í (e. countries of transit) standa frammi fyrir.
    –        Tilmæli 2079 um framkvæmd dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.
    –        Tilmæli 2080 um trúfrelsi og að búa saman í lýðræðislegu samfélagi.
    –        Tilmæli 2081 um misnotkun sumra aðildarríkja mannréttindasáttmála Evrópu á varðhaldi einstaklinga áður en dæmt hefur verið í máli viðkomandi.
    –        Ályktun 2071 um lýðheilsu og hagsmuni lyfjaiðnaðarins: hvernig á að tryggja forgang lýðheilsuhagsmuna.
    –        Ályktun 2072 um brýna þörf fyrir raunverulegt evrópskt kerfi fyrir mótttöku hælisleitenda.
    –        Ályktun 2073 um að mæta þeim áskorunum sem ríki sem flóttamenn hafa viðkomu í (e. countries of transit) standa frammi fyrir.
    –        Ályktun 2074 um starf Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) 2014–2015.
    –        Ályktun 2075 um framkvæmd dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.
    –        Ályktun 2076 um trúfrelsi og að búa saman í lýðræðislegu samfélagi.
    –        Ályktun 2077 um misnotkun sumra aðildarríkja mannréttindasáttmála Evrópu á varðhaldi einstaklinga áður en dæmt hefur verið í máli viðkomandi.
    –        Ályktun 2078 um framvindu eftirlitsferlis Evrópuráðsþingsins frá október 2014 til ágúst 2015.
    –        Ályktun 2079 um jafna ábyrgð foreldra í uppeldi barna og hlutverk feðra í því sambandi.
    –        Ályktun 2080 um að endurskoða stefnu Evrópu gagnvart lyfjamisnotkun.

Stjórnarnefndarfundur 27. nóvember:
    –        Álit 290 um drög að samningi Evrópuráðsins um öryggi á fótboltaleikjum og öðrum íþróttaviðburðum.
    –        Tilmæli 2082 um örlög alvarlega veikra fanga í Evrópu.
    –        Ályktun 2081 um aðgang að réttarkerfi og interneti: möguleikar og áskoranir.
    –        Ályktun 2082 um örlög alvarlega veikra fanga í Evrópu.
    –        Ályktun 2083 um fólksflutninga frá Kína til Evrópu: áskoranir og möguleikar.
    –        Ályktun 2084 um að styðja við bestu starfsvenjur í baráttunni gegn ofbeldi gegn konum.